Að finna styrkleika barna sinna - vísbendingar sem geta hjálpað!

Styrkleiki getur verið sérstakur hæfileiki, svo sem hæfni í stærðfræði, setja hluti í samhengi, spila á hljóðfæri eða hlaupa hratt. En það getur líka verið jákvætt persónueinkenni sem barn hefur í ríku mæli.

Persónustyrkleikar eru jákvæðu hliðar persónuleika okkar sem gagnast okkur og öðrum (t.d. góðvild, þakklæti, sanngirni). Vísindamenn hafa fundið hóp af jákvæðum eiginleikum (kallaðir persónustyrkleikar) sem eru til á fjölmörgum þjóðum sem og í afskekktum ættbálkum um allan heim.

Þessa jákvæðu eiginleikar raðast í sex flokka, sem eru:

  1. Hugrekki
  2. Mannúð
  3. Viska
  4. Réttlætiskennd
  5. Hæfileiki til hófsemi/sjálfsstjórn
  6. Geta til að finna merkingu í einhverju handan við okkur sjálf

Þessi jákvæðu eiginleikar eru þeir sömu um allan heim og við höfum þá öll í einhverju mæli en í mismiklu mæli og eru þeir hluti af okkar einstöku styrkleikauppsetningu.

Persónustyrkleikar - karakter okkar - spila stórt hlutverk í því að hjálpa okkur að byggja upp frammistöðu okkar – sem sagt hæfileika okkar. Hugsaðu um alla sem hafa byggt upp hæfileika og ímyndaðu þér hvort það hefði verið hægt að gera án ákveðinna persónutyrkleika. Ímyndaðu þér Einstein án forvitni, Bítlana án sköpunar, móður Teresu án samkenndar og Neil Armstrong án hugrekkis.


En í áratugi voru vísindamenn blindir fyrir persónustyrkleikum. Lögð var áherslu á frammistöðu, oft á líkamlegan styrk og færni. Reyndar, þegar við spyrjum ung börn fyrst hver þeirra styrkleiki er þá benda þau næstum alltaf á tvíhöfða eða tala um að geta lyft einhverju þungu.

Það er rétt að líkamlegir hæfileikar hjálpuðu okkur að lifa. Samt eru vísindin farin að sýna að ákveðnir persónustyrkleikar hjálpuðu tegund okkar að leysa vandamál og vinna saman til að lifa af og vísindamenn hafa þróað leiðir til að mæla þá.

Rannsóknir Dr. Dacher Keltner hafa sýnt að jákvæð persónueinkenni okkar eins og ást, þakklæti og samvinna, ýttu undir náin tengsl fjölskyldna og vina og leyfðu þeim að sameinast um að deila mat, finna maka og ala upp börn. Þetta er ástæðan fyrir því að jákvæðir eiginleikar eins og samkennd er partur af eðli okkar.


Þegar við höfum kynnst tungumáli styrkleika og áttað okkur á hvernig við getum komið auga á þá, þá eigum við auðveldara með að sjá persónustyrkleika barnanna okkar. Einnig förum við að taka eftir þegar barnið okkar er að nota persónustyrkleika sína til að takast á við áskoranir. Hér á eftir verður talað um styrkleika en það er stytting á orðinu persónustyrkleikar.

 

Þrír eiginleikar styrkleika

Þið hafið sennilega séð barn spila á píano (eða annað hljóðfæri) á sviði án nokkurrar gleði. Það hittir kannski á allar nóturnar en það er engin orka eða áhugi. Það er eins og barnið vilji ekki vera þar. Svo hafið þið eflaust séð barn á sviði sem er greinilega áhugasamt og orkumikið og sveiflast óttalaust í gegnum öll mistök, þrátt fyrir að það séu jafnvel mörg mistök.

Það eru þrír lykilþættir (eða eiginleikar) sem koma saman og mynda styrkleika. Í styrkleikamiðuðu uppeldi erum við að fylgjast með öllum þremur eiginleikum styrkleika:

1. Frammistaða (vera góð/ur í einhverju)
Fylgstu með þegar barnið þitt sýnir árangur yfir meðalgetu, er fljótt að læra eða að tileinka sér og sýnir endurtekinn árangur.

2. Orka (líður vel að gera það og það veitir því orku og/eða gleði)
Styrkleikar styrkja sig sjálfir. Því meira sem við notum þá, því meira gefa þeir okkur. Þeir fylla okkur af krafti. Þú munt taka eftir því að barnið þitt hefur mikla orku þegar það notar styrkleika sína.

3. Mikil notkun (barnið velur að gera það og gerir það oft)
Að lokum skaltu leitaðu að: hvað barnið þitt velur að gera í frítíma sínum, hversu oft það tekur þátt í tiltekinni athöfn og hvernig það talar um þá athöfn.

 

Gott er að taka fram að í hvorugu dæminu hér af ofan myndi það að spila á píanó flokkast sem styrkleiki barnsins vegna þess að í hvorugu dæminu koma allir fyrrnefnd eiginleikar fram.

Í fyrra dæminu stendur barnið sig vel (frammistaða/færni til staðar) en án orku og gleði (veitir ekki orku eða gleði), barnið myndi líklega ekki spila á pianó ef það fengi val (ekki mikil notkun, sækir ekki í að gera það í frítíma sínum).

Í seinna dæminu sýnir barnið mikla orku, gleði (að spila á píanó veitir því orku og gleði) og er áhugasamt (mun mögulega velja að gera það í frítíma sínum) en stendur sig ekki vel (frammistaða ekki góð/lítil færni).


Styrkleikar eru það sem við gerum vel, oft og veitir okkur orku og/eða gleði!

Til þess að um sannan styrkleika sé að ræða þá mynda þessir þrír eiginleikar fallega hringrás: Frábær árangur veitir barninu mikila orku, þannig að barnið kýs náttúrulega að gera meira. Aftur á móti bætir mikil notkun - einnig þekkt sem fyrirhöfn eða æfing - árangur.

Sem dæmi ef þú tekur eftir því að barnið þitt er orkumikið þegar það spilar á píanó þá væri gott að skapa tækifæri fyrir það til að spila. Ef þetta er styrkleiki hjá barninu mun það líklega æfa sig meira, sem bætir frammistöðu þess, sem þá veitir því meiri orku/gleði ... og svo heldur hringrásin áfram.

Með því að hafa þessa þrjá eiginleika styrkleika í huga mun hjálpa þér að komast hjá því að setja barnið þitt í aðstæður þar sem þú heldur að um styrkleika sé að ræða en barnið hefur einfaldlega bara góða færni í þeim aðstæðum, sem sagt þar sem ekki er um eiginlegan styrkleika að ræða. Það mun einnig hjálpa þér að greina á milli þess hvort barnið þitt sé að hella sér í athöfn til þess að forðast eitthvað eða hvort það sé í raun að nota styrkleika sína.

 

Margir foreldrar velta eflaust fyrir sér „barnið mitt er frábært í tölvuleikjum og vill spila allan tímann. Er það merki um styrkleika?

Svarið við því er: Það fer eftir orkustigi barnsins þegar það er í eða er búið að spila tölvuleikinn. Er það orkulaust og svekkt? Eða orkumikið og fullt af lífi? Sérðu alla þrjá eiginleikana, það er góð frammistaða, aukna orku/gleði og mikil notkun?

Í sumum leikjum þarf að nota þrautalausnarhæfni, herkænsku eða jafnvel mikla sköpunarhæfni þar sem búa á til heilu heimilin eða veraldirnar. Þannig að mögulega væri barn þá að nota þessa styrkleika sína við að spila tölvuleikinn. Stundum eru þau í tölvuleikjum bara til þess að fylla upp í dauðan tíma, sem skilur þau eftir orkulaus.

Svo fylgist með og athugið hvort þið sjáið öll þrjá eiginleikana: góða frammistöðu/færni, aukin orka/gleði og mikil notkun. Ef þessir þrír eiginleikar eru sjáanlegir þá veistu að þú hefur uppgötvað styrkleika hjá barninu þínu.

 

Aðrar vísbendingar um styrkleika barnanna þinna

Til þess að átta sig á styrkleikum barna sinna er einnig hægt að fylgjast með þessum þremur atriðum:

Löngun eða þrá
Stundum er hægt að sjá styrkleika barns með því að taka eftir lönguninni eða þránni til að nota hann. Það er eins og barnið komist ekki hjá því að nota styrkleikann og hann mun ná að skína einhvern veginn í gegn, ef svo má segja.

Einstaklingur sem nær ekki eða fær ekki að nota styrkleika sína mun ekki líða eins og hann sjálfur. Þegar löngunin til að tjá styrkleika sína er bæld niður eða hindruð á einhvern hátt þá skapar það einhvern sérstakan sársauka innra með okkur.

Barnið þitt sýnir styrkleikann náttúrulega
Þú getur lært mikið um styrkleika barnsins bara með því að fylgjast með því sem barnið gerir og segir, styrkleikinn virðist vera í eðli þess.

Dæmi: Stúlka sem er stöðugt að teikna/skissa og gerir það jafnvel án þess að átta sig á því. Hún horfir á sjónvarpið með blýant í hendinni. Ef teiknimyndir eru í gangi þá er hún að teikna persónurnar á með hún er að horfa. Það er bara hluti af því hver hún er.

Hluti af styrkleikamiðuðu uppeldi (Strength Based Parenting, SBP) er að leita að vísbendingum sem þessum, bjóða upp á raunhæf tækifæri fyrir barnið til að kanna og síðan meta hvort tiltekinn eiginleiki eða hæfileiki þróist frá því að vera eingöngu „möguleg færni“ yfir í að barnið fari að sýna virkilegan árangur við notkun styrkleikans.

Ef við tökum annað dæmi. Drengur sem getur beygt löngutöng alveg aftur á bak til að snerta úlnliðinn. Það er hæfileiki sem ekki margir hafa en það myndi ekki flokkast sem styrkleiki vegna þess að það stuðlar ekki að þroska þeirra eða leiðir ekki til afkastamikils árangurs í sjálfu sér.

Hins vegar gætu foreldrar litið á “fingurbeygjuhæfileika” drengsins sem mögulegt merki um líkamlegan hæfileika eins og mikinn liðleika. Ef drengurinn væri svo áhugasamur um að nota þennan liðleika væri hægt að bjóða honum að prófa til dæmis fimleika. Ef þetta væri styrkleiki gætu fimleikar hjálpað honum að þroska og þjálfa liðleika sinn enn frekar sem myndi svo hjálpa honum að blómstra á því sviði.

 

Það þarf ekki að bregðast við öllum vísbendingum um styrkleika - það væri þreytandi bæði fyrir þig og barnið þitt. Og allir liðugir fingur þýða ekki endilega að um upprennandi fimleikastjörnu sé að ræða. En það er gaman að hjálpa barninu sínu að taka skref í átt að því að prófa sig áfram með áhugamál sín og færni til að sjá hvert það leiðir þau. Við gerum þetta ósjálfrátt þegar við kaupum Lego fyrir barn sem elskar að byggja með kubbum og púsl fyrir barnið sem hefur gaman að því að flokka og finna heildarmyndina. Þegar við gefum barni, sem þýtur í gegnum hverja bókina á fætur annarri, bók eða bókasafnskort eða hvetjum unglinginn okkar til að bjóða sig fram í sjálfboðavinnu/vinnu með dýrum til að efla samkennd sína og ást á dýrum.

 

Barnið þitt gleymir sér þegar það er að nota styrkleika sína
Það er venjulega tákn um styrkleika ef barnið þitt getur haldið fókus við notkun styrkleikans í lengri tíma, hefur tilhneigingu til að heillast svo af því sem það er að gera að það gleymir sér. Þetta ástand kallast „flæði“. Það er góð leið til að greina á milli hegðunar sem barn er gott í en það er í raun ekki styrkleiki og hegðunar sem viðheldur þessari hringrás sem nefnd var hér á undan. Við gleymum okkur yfirleitt ekki ef það sem við erum að gera veitir okkur ekki mikla orku eða gleði.

Við höfum tilhneigingu til að meta flæðið ekki sem mikilvægt og gilt merki um styrkleika. Það er vegna þess að við höfum rangar hugmyndir um að þreytandi vinna leiði til árangurs. En raunin er að það eru styrkleikar sem leiða til árangurs. Þegar vinnan tengist styrkleikum okkar þá þurfum við ekki að hafa eins mikið fyrir því vegna þess að notkun styrkleika okkar er okkur eðlislæg. Auðvitað stöndum við stundum frammi fyrir krefjandi og þreytandi verkefnum en áhrif þeirra er hægt að dempa með því að taka einnig þátt í öðrum verkefnum sem koma okkur í flæði, það er þegar við erum að nota styrkleika okkar.

Það er hægt að nýta styrkleika á jákvæðan hátt
Vísindamenn tala um að nota þurfi styrkleika á þann hátt sem hefur samfélagslegt eða siðferðislegt gildi. Ef liðugi drengurinn hefði notað styrkleika sinn til þess að komast framhjá leiser öryggiskerfi eins og í njósnaramyndunum þá væri fimleikahæfni hans afkastamikill - hann náði að stela skartgripunum með góðum árangri - en það hefur ekki jákvætt gildi.

 

Hlutverk foreldris er að leiðbeina börnum um jákvæða notkun styrkleika þeirra. Það getur verið hvetjandi að sjá hvernig börn byrja að nota styrkleika sína sem öfl til góðs.

Ef þú ert enn í vandræðum með að greina styrkleika barnanna þinna eða þína eigin skoðaðu þá listann yfir styrkleika hér að neðan.

Einnig er hægt að taka styrkleikaprófið VIA Character Strengths Survey frítt á www.viacharacter.org. Þar eru styrkleikapróf bæði fyrir fullorðna og börn en mælt er með að  börn séu orðin 11 ára eða eldri þegar þau taka styrkleikaprófið sem er ætlað fyrir börn og ungmenni.

 

Höfundur
Sara Tosti

 

 

Greinin er þýdd og umorðuð með góðfúslegu leyfi höfundar erlendu greinarinnar Dr. Lea Waters upphafskonu styrkleikamiðaðs uppeldis. Upprunalegu greinina má finna hér

https://www.leawaters.com/blog/how-to-spot-your-childs-strengths-these-3-indicators-can-help